Frá og með mánudegi mega hárgreiðslustofur taka til starfa á nýjan leik, ökukennarar mega hefja kennslu á nýjan leik og sjúkraþjálfarar einnig auk nokkurra annarra stétta. Dómstólar landsins munu einnig taka til starfa á nýjan leik.
Þingflokkarnir komust að málamiðlum um hvaða starfsemi ætti að opna fyrir á nýjan leik og fengu ekki allir óskum sínum framgengt.
Í næstu viku hefjast svo viðræður um hvernig staðið verður að næsta stigi hvað varðar að aflétta þeim hömlum sem hafa verið settar á ýmsa starfsemi í samfélaginu. Mikill þrýstingur er á að leyfa veitingahúsum, kaffihúsum og framhaldsskólum að hefja starfsemi á nýjan leik en heilbrigðisyfirvöld leggjast gegn því eins og staðan er núna.
Danir hafa náð ágætum tökum á útbreiðslu veirunnar og hefur álagið á heilbrigðiskerfið verið mun minna en óttast var. 233 hafa látist af völdum veirunnar til þessa.