Blaðið er nú vant að sérhæfa sig í ítarlegum umfjöllunum um bandarísk stjórnmál og handavinna ratar sjaldan á síður þess en nú er öldin önnur og gátu lesendur blaðsins nýtt sér sniðið til að útbúa munnbindi.
Sala á púsluspilum hefur aukist um 300 prósent eftir að heimsfaraldurinn náði til Bandaríkjanna og hafa púsluspil ekki selst í svona miklu magni síðan í kreppunni miklu. Hinar ýmsu takmarkanir og lokanir á samfélaginu ná til rúmlega 90 prósenta þjóðarinnar og setur þetta mark sitt á marga þætti samfélagsins.
Í samantekt netmiðilsins Axios um ástandið kemur fram að misnotkun áfengis og fíkniefna sé farin að segja til sín sem og skortur á hreyfingu og neysla á óhollum mat. Áfengisneysla jókst um 55 prósent síðustu vikuna í mars miðað við vikuna á undan samkvæmt tölum frá greiningarfyrirtækinu Nielsen. Í ríkjum þar sem sala á kannabisefnum er lögleg hafa sölumet einnig verið slegin og er talað um 20 til 25 prósenta aukningu.
Efnisveitur á borð við Netflix og Hulu upplifa góða daga en í mars streymdu Bandaríkjamenn þriðjungi meira efni en í febrúar. Pornhug, stærsta klámsíða landsins, segir að heimsóknir á síðuna hafi aukist um sex prósent eftir að fólki var gert að halda sig svona mikið heima.