Það voru vísindamenn við Fudan háskólann í Shanghai sem rannsökuðu 175 manns sem voru smitaðir af COVID-19. Í ljós kom að þriðjungur þeirra myndaði mjög lítið mótefni við veirunni og hjá 10 fundust ekki mælanleg mótefni í líkamanum. Einnig kom í ljós að níu af þeim tíu, sem ekkert mótefni fannst hjá, voru 40 ára eða yngri.
Flestir þátttakendanna, sem eru á aldrinum 16-68 ára, mynduðu mótefni 10-15 dögum eftir að veiran barst í líkama þeirra.
WHO segir þó að enn sé of snemmt að álykta út frá þessum niðurstöðum. Mike Ryan, forstjóri neyðaráætlunar WHO, var spurður út í rannsóknina og sagði að það mætti vænta þess að ónæmiskerfi fólks, sem bregst eðlilega við og myndar mælanlegt mótefni, veiti vernd í ákveðinn tíma.
„Við vitum bara ekki hversu lengi. Við væntum þess að um töluverðan tíma sé að ræða en það er erfitt að segja til um það þegar ný veira á í hlut.“