Fine tók við starfinu í síðustu viku og því var starfstími hans ansi stuttur. Hann átti að stýra deildinni sem hefur eftirlit með hvernig peningunum verður varið og aðgerðum stjórnvalda á heilbrigðissviðinu. Fine hafði áður stýrt eftirliti með notkun alríkislögreglunnar FBI á ýmsum eftirlitsaðferðum og öðrum heimildum sem hún fékk í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 2001. Fine er þekktur fyrir að vera sjálfstæður og óháður öllum og mjög ágengur í starfi þar sem hann hlífir engum.
Brottreksturinn sætir töluverðri gagnrýni í Bandaríkjunum. Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeild þingsins, gagnrýnir brottreksturinn harðlega og segir „augljóst að Trump sé hræddur við öflugt eftirlit“.
„Forsetinn misnotar COVID-19 faraldurinn til að losa sig við heiðarlegan og óháðan embættismann sem er reiðubúinn til að segja valdhöfum sannleikann.“
Trump hefur margoft gagnrýnt þetta eftirlit og annað eftirlit sem á að tryggja að ríkisfé sé ekki misnotað.
Trump hefur nú sett Sean O‘Donnell, forstjóra hjá EPA umhverfisstofnuninni, í embættið. New York Times skýrir frá þessu.