Aftonbladet skýrir frá þessu. Fram kemur að á Karólínska sjúkrahúsinu í Solna séu lík nú geymd í kæli sem hefur verið notaður undir mat. Blaðið hefur eftir heimildamanni, sem starfar á sjúkrahúsi í Stokkhólmi, að líkum sé staflað þar og sum geymd á gólfinu.
Við venjulegar aðstæður er tekið við 5-6 líkum hvern dag í líkhúsum sjúkrahúsa í Stokkhólmi. Í gær, mánudag, voru það hinsvegar 25 lík frá Danderyd sjúkrahúsinu sem þurfti að taka við auk á fjórða tug líka frá Karólínska sjúkrahúsinu. Nótt eina í síðustu viku létust 17 á einu sjúkrahúsanna og var að sögn heimildamanns erfitt að meðhöndla líkin af þeirri varfærni og virðingu sem krafist er.
Í fyrrgreindum kæli, sem áður var notaður undir mat, á Karólínska sjúkrahúsinu í Solna eru nú geymd 100 til 150 lík frá öðrum sjúkrahúsum. Líkin eru í pokum og mörg í hverju rúmi. Þegar rúmpláss verður búið er næsta skref að setja þau á gólfið sagði heimildamaður Aftonbladet.