Ástæðuna má rekja til lítils eftirlits og mjög takmarkaðra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar á dvalarheimilum.
Reiknað er með að enn fleiri látist á dvalarheimilunum á næstunni og að tölfræðin versni enn frekar því enn skortir á réttar tilkynningar um fjölda andláta á dvalarheimilum. Auk þess eru ekki tekin sýni úr öllum sem veikjast.
Íbúar, starfsfólk og ættingjar hafa að undanförnu reynt að vekja athygli yfirvalda á þessu og virðast yfirvöld nú vera að vakna til lífsins og átta sig á alvöru málsins.
Í bænum Mougins, sem er nærri Cannes, hafa um 30 íbúar á dvalarheimilinu La Riviera látist síðustu tvær vikur af völdum COVID-19. Bæjarstjórinn segir ástandið einna helst líkjast „heimsendi“. Hann segist ekki hafa mikla trú á heilbrigðisyfirvöldum í bænum og heldur ekki á Korian, sem er fyrirtæki sem á og rekur hluta af dvalarheimilum landsins, þar á meðal La Riviera.
„Nú eru tæpar tvær vikur síðan ég krafðist þess að sýni væru tekin úr öllum. Dag eftir dag hefur þeim fjölgað sem verða fyrir barðinu á þessu ástandi og fleiri hafa látist, þetta líkist heimsendi, fjöldamorði.“
Sagði bæjarstjórinn, Richard Galy, í samtali við AFP.
Saksóknarar hafa nú staðfest að rannsókn sé hafin á starfsemi dvalarheimilisins í kjölfar kæru frá aðstandanda eins íbúanna um að lífi íbúanna sé stefnt í hættu.