CNN skýrir frá þessu og veltir upp spurningunni um af hverju fólk hamstri klósettpappír? Hann veitir enga vörn gegn vírusnum og telst varla til allra helstu nauðsynja til að lifa af.
CNN leitaði svara hja Steven Taylor, sálfræðingi, um þetta.
„Þegar fólk heyrir að eitthvað hættulegt sé yfirvofandi, og að maður þurfi bara að þvo hendurnar til að forðast hættuna, þá virðist þetta góða ráð ekki vera í samræmi við hina yfirvofandi hættu. Þá á fólk það til að fara út í öfgar.“
Sagði hann og bætti við að við mennirnir séum félagsverur og að við fylgjumst með hvert öðru til að sjá hvað er hættulegt og hvað er hættulaust. Þegar fólk sjái tómar klósettpappírshillur í stórmörkuðum hugsi það með sér að það neyðist líka til að fara og kaupa klósettpappír á meðan hægt er. Það sem hafi byrjað sem hugsun un skort á klósettpappír hafi í raun orðið að raunverulegum skorti á klósettpappír.
Frank Farley, sálfræðingur, sagði að faraldurinn virkji einhverskonar kerfi í huga fólks sem á að tryggja að það lifi af.
„Þess er vænst að maður haldi sig eins mikið innandyra heima hjá sér og því verður maður að sanka að sér og kaupa nauðsynlegustu hluti, þar með klósettpappír. Ef maður verður uppiskroppa með klósettpappír, hvað á maður þá að nota?“