Terry Jones, sem gerði garðinn frægan með spéfuglunum í Monty Python, er látinn, 77 ára að aldri. Terry greindist með framheilabilun árið 2015 og hrakaði heilsu hans tiltölulega hratt.
Vinur hans og félagi úr Monty Python, Michael Palin, segir við breska fjölmiðla að undir það síðasta hafi Terry varla þekkt hann og ekki getað haldið uppi samskiptum. Þó hafi verið stutt í húmorinn og Terry hlegið þegar hann las brot úr bók sem þeir skrifuðu saman á níunda áratug liðinnar aldar.
Terry skrifaði mikið af því efni sem sló í gegn hjá Monty Python og leikstýrði einnig myndunum Monty Python and The Holy Grail, Life of Brian og Meaning of Life. Þá var hann afkastamikill barnabókahöfundur og vel að sér í miðaldasögu. Terry lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.