Margir ákváðu að halda sig innandyra þegar þeir sáu grátt mengunarskýið leggjast yfir stórborgina. Ástæða mengunarinnar eru miklir skógareldar sem brenna nú í Indónesíu en þar er verið að brenna skóg svo hægt sé að ryðja landið og nota til ræktunar, þar á meðal á pálmaolíu.
Á laugardaginn blésu sterkir vindar reyk frá skógareldum á Súmötru inn yfir Singapore og Malasíu. Loka þurfti mörg hundruð skólum í Malasíu vegna þessa og hálfri milljón öndunargríma var útdeilt til borgara landsins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur varað við hættunni af reyknum, sérstaklega vegna örsmárra agna sem fylgja honum og eru nægilega litlar til að fara langt inn í lungun og geta einnig borist til annarra líffæra í gegnum æðakerfið.
Reykurinn getur einnig valdið hjarta- og æðasjúkdómum, öndunarörðugleikum og krabbameini.