Búið hefur verið í bænum síðan á steinöld en þar er ægifagurt og því leggja margir ferðamenn leið sína þangað. Til að koma í veg fyrir að þeir eyðileggi náttúruna hafa íbúarnir 22 á eigin vegum komið upp salernisaðstöðu og sorpílátum. Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu.
Einnig hafa íbúarnir útbúið aðstöðu svo ferðamenn geti lagt bílum sínum, tjaldað og tæmt úr klósettum sínum. Þeir vinna nú að gerð sjónpósta og gönguleiða þar sem ferðamenn geta fengið upplýsingar í síma sína á meðan þeir ganga og njóta náttúrunnar.
Uttakleiv er ekki beint í alfaraleið en bærinn er í norðvesturhluta Noregs og tilheyrir hinum svokölluðu Lófóten-eyjum.