Þó fátt bendi til þess að Bjarni Benediktsson láti af embætti formanns Sjálfstæðisflokksins í haust eru margir tilbúnir til að spá fyrir um arftaka hans. Þar beinist umræðan eðlilega fyrst að varformanni flokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Hún þykir hafa staðið sig vel í embætti, hvað svo sem margir eldri sjálfstæðismenn segja. Hún þykir skelegg og fylgin sér og reynsluleysi virðist ekki há henni.
Svo er það auðvitað Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Fáir stjórnmálamenn hafa sterkara bakland en hann og stuðningurinn er víðtækur. Guðlaugur þykir því líklegur, þó hann sé síður en svo óumdeildur innan Sjálfstæðisflokksins.
Elliði Vignisson er líka reglulega nefndur til sögunnar. Hann hefur verið áberandi í þjóðmálaumræðunni og þykir hafa staðið sig vel í sveitastjórnapólitíkinni. Talið er víst að hann hafi áhuga, en spurning er hversu víðtækur stuðningurinn er.
Svo er auðvitað mögulegt að sjálfstæðismenn leiti út fyrir hina hefðbundnu pólitísku hringiðu. Margir eru þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegasta leiðin.