fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Pressan

Þýski hjúkrunarfræðingurinn myrti allt að 300 sjúklinga

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 8. júní 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Niels Högel hóf störf á gjörgæsludeild Delmenhorst sjúkrahússins í Þýskalandi fékk hann góð meðmæli hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum. Hann var sagður maður sem starfaði „sjálfstætt og samviskusamlega“. Þegar mikið lá við var hann sagður bregðast við af „yfirvegun“ og ekki nóg með því viðbrögð hans væru „tæknilega rétt“. Þetta voru meðmælin frá sjúkrahúsi í Oldenburg þar sem hann hafði starfað. Í þeim var ekki minnst einu orði á að stjórnendur sjúkrahússins voru fullir grunsemda vegna þess hversu margir sjúklingar létust þegar Högel var á vakt. Þeir minntust heldur ekki á að honum hafði verið bannað að umgangast eða koma nærri sjúklingum og að hann hafði í raun verið þvingaður til að hætta störfum á sjúkrahúsinu.

En Niels Högel var ekki allur þar sem hann var séður þrátt fyrir góð meðmæli og meinta getu til að bregðast hratt og örugglega við þegar erfiðar aðstæður komu upp. Hann hefur játað að hafa myrt marga sjúklinga og talið er hugsanlegt að hann hafi myrt allt að 300. En af hverju komu vinnufélagar hans og yfirmenn ekki í veg fyrir að hann gæti haldið morðæðinu áfram? Af hverju fékk þessi stórtæki raðmorðingi að leika lausum hala svona lengi? Allt þetta aðgerðarleysi gerði að verkum að hann er einn af stórtækustu raðmorðingjum sögunnar.

Fljótlega eftir að Högel hóf störf á sjúkrahúsinu í Delmenhorst vöknuðu ákveðnar grunsemdir þar. Tæpum fjórum mánuðum eftir að hann hóf störf þar lést Brigitte A. á meðan hún var í hans umsjá. Fljótlega fylgdu fleiri í kjölfarið, þar á meðal Hans S., Christoph K. og Joseph Z. Þýskir fjölmiðlar nota bókstaf í staðinn fyrir fullt eftirnafn þeirra til að brjóta ekki gegn lögum um friðhelgi einkalífsins og þess vegna birtast nöfnin hér með þessum hætti.

Talið er að Niels Högel, sem nú er 42 ára, sé sá raðmorðingi sem hefur flest mannslíf á samviskunni og er þá átt við morð á friðartímum um allan heim. Þýsk yfirvöld telja að hann hafi hugsanlega myrt allt að 300 sjúklinga á fyrstu fimm árum þessarar aldar. Þetta mat er byggt á tíu ára rannsókn og uppgreftri og rannsóknum á rúmlega 130 líkum í Þýskalandi, Póllandi og Tyrklandi. Högel hefur játað að hafa myrt 43, hefur ekki vísað því á bug að hann hafi myrt 52 til viðbótar en þvertekur fyrir að hafa myrt 5 aðra. Hann hefur nú þegar verið sakfelldur fyrir morð á tveimur sjúklingum og fyrir hlutdeild í andlátum tveggja annarra. Saksóknarar hafa ákært hann fyrir 101 morð að auki og krefjast þess að hann verði dæmdur í lífstíðarfangelsi til viðbótar því lífstíðarfangelsi sem hann hefur nú þegar verið dæmdur í.

Óþægilegar spurningar vakna

Fjöldi morðanna og ekki síður sá tími sem leið þar til grunsemdir vöknuðu um það sem hann gerði, hafa vakið óþægilegar spurningar í Þýskalandi. Ein sú viðkvæmasta er hvort það sé virðing Þjóðverja fyrir röðun í valdastiga og ást þeirra á verkferlum, sem gerði nasistum kleift að vinna óhæfuverk sín, sem hafi gert Högel kleift að stunda dráp svona lengi.

„Ef það getur gerst að hægt er að sópa rúmlega 300 dauðsföllum á 15 árum undir gólfteppið, hvað fleira er þá hægt að gera? Hvað þarf að gerast til að Þjóðverjar rétti úr sér og beiti athyglisgáfunni?“

Þetta er meðal þess sem Christian Marbach hefur sagt á mörgum þeirra funda sem hann kemur fram á í hjúkrunarfræðingaskólum í Þýskalandi þar sem hann beinir kastljósinu að siðferðislegum álitaefnum í tengslum við mál Högel. Afi Marbach var eitt fórnarlamba Högel.

Ofurhetja endurlífgana

Nú er Högel ákærður fyrir að hafa morð á 101 sjúklingi til viðbótar þeim sem hann hefur áður verið dæmdur fyrir að hafa myrt. Hann er ákærður fyrir að hafa myrt 36 sjúklinga á háskólasjúkrahúsinu í Oldenburg og 64 á sjúkrahúsinu í Delmenhorst. Dómarinn í málinu, Sebastian Bührmann, hefur fyrirskipað rannsókn á málum átta fyrrverandi samstarfsfélaga Högel vegna gruns um meinsæri. Grunur leikur á að þeir hafi logið fyrir rétti eða að minnsta kosti leynt upplýsingum til að hylma yfir brot í starfi.

Þá hafa tveir læknar og tveir yfirhjúkrunarfræðingar á sjúkrahúsinu í Delmenhorst verið ákærðir fyrir manndráp af gáleysi vegna aðgerðarleysis þeirra í máli Högel. Reiknað er með að Högel beri vitni í málum þeirra en þau verða tekin fyrir þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli hans nú í júní.

Í þýskum fjölmiðlum hefur komið fram að fyrrverandi vinnufélagar Högel segi að hann hafi fljótlega fengið orð á sig fyrir að vinna vel undir álagi, við aðstæður upp á líf og dauða. Saksóknarar segja að hann hafi hins vegar sjálfur skapað þessar aðstæður til að geta brugðist við og sýnt hvers hann væri megnugur. Hann gaf sjúklingunum of stóra lyfjaskammta sem höfðu hjartastopp í för með sér til að hann gæti, eins og ofurhetja, endurlífgað þá. Vinnufélagar hans kölluðu hann Rambo vegna þessa og gáfu honum hálsmen, búið til úr sprautum, sem hann bar stoltur.

Á þeim þremur árum sem Högel starfaði á sjúkrahúsinu í Delmenhorst létust 411 sjúklingar. 321 lést þegar Högel var á vakt eða eftir að hann lauk vakt. Yfirvöld vita þó ekki hversu marga þeirra hann drap. Fyrir dómi verða aðeins tekin fyrir mál þar sem unnt hefur verið að grafa lík meintra fórnarlamba upp og kryfja þau til leitar að lyfjum sem Högel gæti hafa notað.

Niels Högel
Sá raðmorðingi sem hefur flest mannslíf á samviskunni á friðartímum.

Loksins komst upp um hann

Það var í júní 2005 sem loksins komst upp um Högel. Þá kom hjúkrunarfræðingurinn Renate T. að honum standandi yfir sjúklingi með lungnakrabbamein, Dieter Maass. Slökkt var á öndunarvél hans og í skál við hlið hans lágu fjórar tómar sprautur með lyfjum sem hafði ekki verið ávísað á Maass. Renate T. tók blóðprufu úr Maass og sendi í rannsókn. Daginn eftir lést hann.

Í ljós kom að lífshættulegt magn af hjartalyfjum var í blóði Maass. Þegar niðurstaðan lá fyrir funduðu vakthafandi læknir og hjúkrunarfræðingur um málið en Högel fékk að ljúka vaktinni. Það kostaði hina 67 ára Renate Röper lífið.

 

Sjálfselskur og með lítið sjálfsálit

Süddeutsche Zeitung hefur eftir doktor Karl-Heinz Beine, þekktum taugasjúkdómasérfræðingi og yfirlækni geðdeilar St. Marien sjúkrahússins í Hamm, að svo virðist sem sjálfselska og þörf fyrir að bæta upp fyrir lítið sjálfsálit hafi drifið Högel áfram við morðin. Beine hefur rannsakað raðmorðingja innan heilbrigðisgeirans síðan 1989. Hann segir að Niels Högel tilheyri þeim mikla minnihluta sem myrði sjúklinga sína. Hann segir að það sem sló hann mest við vitnisburð Högels sé algjör skortur á samúð, jafnvel þegar hann ræddi við ættingja hinna látnu.

Högel ákvað ungur að árum að verða hjúkrunarfræðingur eins og faðir hans. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í Wilhelmshaven í norðurhluta Þýskalands ásamt eldri systur sinni.

Fljótlega eftir að hann lauk námi og hóf störf á sjúkrahúsi tóku vinnufélagar hans eftir því að endurlífga þurfti marga sjúklinga þegar Högel var á vakt. Einn þeirra sagði fyrir rétti að fólk deyi á gjörgæsludeildum en ekki svona margir og ekki svona fljótt. Annar vinnufélagi hans sagði að í fyrstu líti þetta bara út eins og örlögin séu að verki en á einhverjum tímapunkti breytist það og grunsemdir vakni.

Vinnufélagar Högel ræddu um hann og mál hans en virðast ekki hafa skýrt yfirmönnum frá áhyggjum sínum eða sent inn kvörtun. Það var af ótta við að sett yrði ofan í við þá eða vegna þess að þeir töldu þetta ekki vera hlutverk sitt en Þjóðverjar eru mjög uppteknir af að vernda einkalíf sitt. Einn hjúkrunarfræðingur á Delmenhorst sagði yfirmönnum sínum þó frá áhyggjum sínum af mörgum dauðsföllum þegar Högel var á vakt en því máli var ekki fylgt eftir.

Beine segir að hann vonist til að málið og sú mikla athygli sem réttarhöldin fá geti orðið til þess að brjóta upp hefðbundna valdaröð á sjúkrahúsum en hún er í mjög föstum skorðum þar sem og í öðrum opinberum stofnunum í Þýskalandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið