fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Pressan

Nýjar leiðir í skordýrarækt: „Þetta er eins og að reyna að sannfæra nokkur þúsund smábörn um að fara í bað“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 31. maí 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að borða pöddur er tilhugsun sem flestum Íslendingum býður við. Hugsanlega verða þær samt komnar inn í vikumatseðlilinn áður en langt um líður því að skordýraát er á mikilli uppleið á Vesturlöndum. Þróunin er þegar hafin í Bandaríkjunum og skordýrabú spretta upp eins og gorkúlur. Helsta vandamálið hefur ekki verið að koma í veg fyrir að fólki bjóði við skordýrunum, heldur að lágmarka framleiðslukostnaðinn til að gera vöruna samkeppnishæfa við kjúkling og aðra matvöru. Í Flórída hefur ungt og tæknimenntað fólk stofnað krybbubú og notar nýjar og skilvirkari aðferðir en áður þekktust.

 

Trina Chiasson
Stofnaði krybbubú í Flórída.

Eins og að sannfæra smábörn um að fara í bað

Landbúnaður hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og áratugum. Fjós eru að verða sífellt tæknivæddari, áburðurinn og fóðrið betra og húsdýrin almennt stærri og heilsuhraustari en áður. Húsdýrin hafa þó lengst af verið hin sömu. Ær, kýr, hross, svín og hænsfuglar hér á Íslandi. Geitur, lamadýr, asnar og hreindýr víðs vegar úti í heimi.

En ný stétt er að verða til í landbúnaðinum vestra, skordýrabændur. Algengustu húsdýrin sem þeir halda eru krybbur. Krybbur hafa reyndar lengi verið ræktaðar í Taílandi og Indókína og þar eru krybbur borðaðar sem snakk. Vesturlönd eru hins vegar að taka sín fyrstu skref í skordýraáti en krybbubúskapur er að tæknivæðast eins og annar landbúnaður.

Trina Chiasson, James Ricci og Ray Snorkel stofnuðu krybbubú í LaBelle í Flórída. Bakgrunnur þeirra liggur hins vegar allt annars staðar en í búskap. Þau eru tæknimenntuð borgarbörn sem störfuðu í hugbúnaðargeiranum og seldu sprotafyrirtæki. Takmark þeirra er að gera krybbubúskap sjálfbæran og afkastamikinn, rétt eins og kjúklingabúskap.

Eitt helsta vandamálið hefur verið að fá krybburnar til að fjölga sér hratt og örugglega. Hingað til hafa þær verið settar í rakan barnamosa og síðan reynt að tæla afkvæmin til að skríða ofan í mál eða glös. Snorkel segir: „Þetta er eins og að reyna að sannfæra nokkur þúsund smábörn um að fara í bað.“

Chiasson segir: „Kostnaðurinn við þessa leið er allt of hár í núverandi matarframleiðslukerfi. Miðað við hversu ódýrt það er að rækta kjúkling þá kemst þetta ekki einu sinni nálægt því og skýrir af hverju pund af beinlausri kjúklingabringu kostar rúmlega þrjá dollara en pund af krybbum kostar fimmtán dollara.“

 

Önnur skordýr vandamál

Þríeykið vinnur nú að nýjum lausnum til ræktunar og fetar sig áfram, bæði með tæknikunnáttu sinni og hyggjuviti. Sett hafa verið upp stór og opin plastílát fyrir krybburnar. En þær komast ekki upp úr þar sem á barmana er úðað glæru og hálu epoxýefni. Þúsundir krybba eru geymdar í hverju íláti.

Kvendýrin eru geymd í stórum málmílátum sem innihalda einnig barnamosa. Þetta lítur út eins kaka í bökunarformi. Eggin eru síðan flutt í hitaskápa þar sem þau ungast út. Þaðan er ungviðið flutt í eins konar eggjabakka úr pappa. Allt framleiðsluferlið er nýtt af nálinni og minnir um margt á kjúklingabú. Þetta er færibandavinna, mun einfaldari og mun hraðvirkari en áður hefur þekkst í krybbubúskap.

Krybbubúskapur og önnur skordýrarækt er mjög viðkvæm starfsemi og lítið má út af bera svo illa fari. Maurar, sníkjudýr og önnur rándýr geta ógnað krybbunum og aðstæðurnar verða að vera fullkomnar. Borgarkrakkarnir hafa fundið einfalda leið til að hindra maura frá því að komast að krybbunum og krybbueggjunum. Geymslurnar standa á sökklum með vatni svo maurarnir geta ekki klifrað upp. Þetta er ein af þeim einföldu en hugvitssömu leiðum sem þau hafa þróað.

Krybbur
Framandi lostæti.

Tegundir þarf að velja vel

Árið 2017 velti skordýraræktin í Bandaríkjunum 55 milljónum dollara, eða tæpum 7 milljörðum króna. Hefur markaðurinn stækkað mjög hratt, sérstaklega eftir útkomu skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2013 þar sem sagt var að skordýrarækt væri leið til að mæta próteinþörf samfara fólksfjölgun í heiminum. Í Bandaríkjunum eru nú á bilinu tuttugu til fjörtíu skordýrabú og 540 fyrirtæki koma að einhverju leyti að skordýrarækt.

En mörgum hefur mistekist. Kevin Bachhuber stofnaði krybbubú í Youngstown í Ohio-fylki árið 2014. Búið var það fyrsta til að standast skoðun frá Bandaríkjastjórn um skordýrarækt til manneldis. En á aðeins nítján dögum dóu allar krybburnar, sex milljónir talsins.

„Krybbur eru heimskar, og þær munu drekkja sér ef þær geta,“ sagði Bachhuber. „Hversu erfið er krybburækt? Svo erfið að ég er í fullri vinnu við að segja fólki hvað fór úrskeiðis.“

Krybbur eru ekki einu ætu skordýrin í veröldinni. Um 2.000 tegundir eru vel til þess fallnar. En einnig verður að líta til annarra þátt svo sem áhrifa á umhverfið. Til eru æt skordýr sem lifa á kjöti og sum, til dæmis termítar, gefa frá sér metangas sem er afar slæmt vegna loftslagsmála. Ræktunin getur einnig krafist mikillar orku. Umhverfisspor skordýraræktunar getur því verið töluvert.

Á meðal ætra skordýra má nefna engisprettur, maura, trjálús, ánamaðka, marmaratítur, sporðdreka, klaufhala og birkisprotalýs.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Ótrúleg saga – Lá í dái og talaði reiprennandi frönsku þegar hann vaknaði

Ótrúleg saga – Lá í dái og talaði reiprennandi frönsku þegar hann vaknaði
Pressan
Fyrir 21 klukkutímum

Sonurinn skoðaði gamalt jólakort fjölskyldunnar – Sá undarlegan hlut á því – Sérð þú það sem hann sá?

Sonurinn skoðaði gamalt jólakort fjölskyldunnar – Sá undarlegan hlut á því – Sérð þú það sem hann sá?
Pressan
Í gær

Hann skildi ekki af hverju móðir hans hvarf alltaf í nokkra tíma á aðfangadagskvöld – Síðan kom bréfið

Hann skildi ekki af hverju móðir hans hvarf alltaf í nokkra tíma á aðfangadagskvöld – Síðan kom bréfið
Pressan
Í gær

Hér borðar fólk skyndibita á aðfangadagskvöld – „Ég held nánast að það sé bara í eðli okkar“

Hér borðar fólk skyndibita á aðfangadagskvöld – „Ég held nánast að það sé bara í eðli okkar“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Regluleg neysla á dökku súkkulaði gæti minnkað líkurnar á sykursýki 2

Regluleg neysla á dökku súkkulaði gæti minnkað líkurnar á sykursýki 2
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona langan tíma tekur það ketti að gleyma eiganda sínum

Svona langan tíma tekur það ketti að gleyma eiganda sínum