Nokkrir áhrifamiklir rabbínar telja að það að halda Eurovision á laugardegi brjóti hugsanlega gegn hvíldardeginum. Trúaðir gyðingar séu þvingaðir til að vinna á laugardegi og þetta sé hættulegt fyrir veru þeirra í hinu heilaga landi.
Úrslitakeppnin hefst einni klukkustund eftir sólsetur á laugardaginn og brýtur því í sjálfu sér ekki gegn hvíldardeginum en það gerir hins vegar öll hin mikla undirbúningsvinna sem þarf að fara fram á laugardeginum til að undirbúa kvöldið.
Af þessum sökum hafa ísraelsk stjórnvöld gefið út 2.000 undanþágur til að gyðingar geti unnið á hvíldardeginum í tengslum við keppnina.
Ekki er talið óhugsandi að málið geti haft pólitískar afleiðingar fyrir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra, sem reynir nú að mynda nýja ríkisstjórn. Hann hefur átt í viðræðum við fjölda flokka um myndun samsteypustjórnar en í síðustu viku dró UTJ flokkurinn sig út úr viðræðunum vegna allra undanþáganna sem stjórnvöld hafa veitt vegna Eurovision.