Nú síðast er fólkið grunað um að hafa rænt peningaflutningabíl í Köln í byrjun mars. Flóttabíll ræningjanna fannst síðan brunninn.
Þau sem leitað er að heita Daniela Kletta, 61 árs, Ernst-Volker Staub, 65 ára, og Burkhard Garweg, 50 ára. Talið er að þau standi á bak við níu til tólf rán og hafi haft mörg hundruð þúsund evrur upp úr krafsinu.
Þýsk yfirvöld hafa heitið 80.000 evrum í verðlaun fyrir upplýsingar sem verða til þess að hægt verður að hafa uppi á þremenningunum. En þrátt fyrir þessi háu verðlaun, mörg hundruð ábendingar, greinar í dagblöðum og tímaritum og sjónvarpsþætti er lögreglan ekki við að hafa uppi á þeim. Síðasti stóri áfangi náðist 2015 þegar lögreglan fann lífsýni úr þremenningunum eftir rán.
Marcus Röske, saksóknari, sagði í samtali við Kreiszeitung að stærsta vandamálið nú sé að lögreglan hafi ekki hugmynd um hvar þremenningarnir eru. RP Online segir að nokkrum sinnum hafi lögreglan verið við að hafa hendur í hári þremenningana en þeir hafi alltaf komist undan á síðustu stundu.
En það er ekki bara þýska lögreglan sem leitar að þremenningunum því fyrir nokkrum árum síðar beindust sjónir lögreglunnar að Hollandi en sími, sem talið er að þremenningarnir hafi notað, var þá staðsettur þar í landi. Auk hollensku lögreglunnar vinna franska, ítalska og spænska lögreglan að rannsókn mála tengdum þremenningunum og leita þeirra.
Ernst-Volker Staub er talinn hafa sést á tjaldstæði í norðurhluta Ítalíu en það hefur ekki verið sannað. Þá leikur grunur á að þremenningarnri fái aðstoð hjá gömlum vinum sínum í basknesku hryðjuverkasamtökunum ETA eða hjá systursamtökunum, Rauðu herdeildunum, á Ítalíu.
Þýskir fjölmiðlar segja að lögreglan telji ekki útilokað að þremenningarnir hafi fengið ný persónuskilríki á tímum Austur-Þýskalands en tengsl voru á milli Rauðu herdeildanna og austur-þýsku leyniþjónustunnar Stasi. Vitað er að tíu aðrir félagar í Rauðu herdeildunum fengu ný persónuskilríki í gegnum Stasi.