fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Pressan

Norræna bankahneykslið

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 20. apríl 2019 08:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Víða um heim er horft til Norðurlandanna sem fyrirmyndarríkja hvað varðar lífsgæði, jafnrétti, öryggi, heiðarleika og ýmislegt fleira. Norðurlöndin tróna oft á toppi ýmissa lista og samantekta sem eru gerðar um eitt og annað sem viðkemur daglegu lífi fólks. Þá telja margir að lítil mengun sé á Norðurlöndunum, þar sé heiðarleiki hafður í miklum metum og að spilling finnist næstum ekki. En nú hefur skuggi fallið á ímyndina. Stór bankahneyksli skekja nú Danmörku og Svíþjóð og flest bendir til að ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim málum.

Danske Bank, stærsti banki Danmerkur, hefur mánuðum saman verið í umræðunni og í skoðun hjá yfirvöldum vegna peningaþvættismáls sem hefur nú þegar kostað Thomas Borgen starfið sem aðalbankastjóri bankans. Þá þurfti formaður bankaráðs að láta af störfum eftir að Mærsk-fjölskyldan, sem á samnefnt skipafélag og ýmis önnur fyrirtæki, beitti sér innan bankans en fjölskyldan á stóran hlut í bankanum.

Í síðustu viku var Birgitte Bonneson, bankastjóri Swedbank í Svíþjóð, síðan látin taka pokann sinn eftir að bankinn var bendlaður við peningaþvætti. Þá hefur Nordea bankinn í Danmörku og Svíþjóð einnig verið til skoðunar að undanförnu vegna peningaþvættis.

Milljarðar á milljarða ofan

Mál Danske Bank er mjög umfangsmikið og gæti verið eitt stærsta peningaþvættismál sögunnar í heiminum. Talið er að 300 til 400 milljarðar dollara hafi verið þvættaðir í gegnum útibú bankans í Eistlandi frá 2007 til 2015. Megnið af peningunum virðist hafa komið frá Rússlandi. Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða en þær eru um tíu sinnum hærri en stærð eistneska hagkerfisins. Samt sem áður virðast engin viðvörunarljós hafa kviknað innan Danske Bank og það þrátt fyrir að bæði Deutsche Bank og JP Morgan fjárfestingarbankinn hafi varað Danske Bank við en bankarnir sáu um fjármagnsfærslur fyrir Danske Bank.

Sænska ríkisútvarpið skýrði frá því í vetur að minnst 135 milljarðar dollara hafi verið fluttir í gegnum útibú Swedbank í Eistlandi, frá viðskiptavinum sem voru flokkaðir í hæsta áhættuflokk og bjuggu utan Eistlands, á árunum 2008 til 2018. Þetta voru aðallega Rússar. Stór hluti af þessu fé fór á milli reikninga í útibúum Swedbank og Danske Bank í Eistlandi. Það bendir til að tengsl séu þarna á milli. Þá skýrði Sænska ríkisútvarpið nýlega frá því að í gegnum útibú Swedbank í Litháen hafi milljónir dollara streymt af reikningum í Úkraínu sem tengjast hugsanlega fyrrverandi forseta landsins, Viktor Yanukovych, sem er nú í útlegð í Rússlandi og á ákærur fyrir landráð yfir höfði sér í heimalandinu. Fram kom að hluti þessa fjár hefði endað á reikningum sem tengjast Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump, sem hlaut nýlega þungan fangelsisdóm í Bandaríkjunum. Manafort starfaði áður fyrir Yanukovych. Swedbank sætir rannsókn bandarískra yfirvalda fyrir villandi upplýsingagjöf. Í apríl 2016 krafði fjármálaeftirlit New York-ríkis bankann um upplýsingar um fjármagnsfærslur tengdar Mossack Fonseca, hinni velþekktu lögmannsstofu í Panama, í Eystrasaltsríkjunum en fékk ekki fullnægjandi skýringar og því er Swedbank nú til rannsóknar þar á bæ. Ekki bætir það stöðu Swedbank að ásakanir hafa komið fram um að bankinn hafi brotið reglur um innherjaupplýsingar með því að láta marga hluthafa í bankanum vita af ásökununum um peningaþvættið.

Sergei Magnitsky
Barinn til dauða í rússnesku fangelsi.

Nordea, sem er stærsti banki Svíþjóðar, hefur einnig verið sakaður um að hafa leyft peningum, frá vafasömum aðilum, að renna í gegnum útibú bankans í Eistlandi, Danmörku og Finnlandi. Færslurnar áttu upphaf sitt í banka í Litháen en sá er ekki starfandi lengur. Hluti af þessu fé er sagður tengjast spillingarmálum sem rússneski endurskoðandinn Sergei Magnitsky kom upp um í Rússlandi. Hann var barinn til dauða í rússnesku fangelsi 2009.

Eystrasaltsríkin eru miðpunkturinn

Öll þessi hneyksli eiga það sameiginlegt að það eru útibú bankanna í Eystrasaltsríkjunum sem virðast hafa verið notuð af Rússum til að dæla peningum, sem var aflað með vafasömum hætti, frá Rússlandi og til Vesturlanda.

Nú vinna sænsk og dönsk stjórnvöld að því að herða allt regluverk í kringum starfsemi banka og fjármálastofnana og veita þeim meiri völd og úrræði til að takast á við mál eins og þessi. En þessi hneykslismál vekja upp spurningar um af hverju þessi stóru norrænu bankar voru svo berskjaldaðir fyrir peningaþvætti. Bent hefur verið á að í Bandaríkjunum sé regluverkið mun betra og bankar og eftirlitsstofnanir betur í stakk búnar til að takast á við slík mál. Það sama á ekki við alls staðar í Evrópu og það er kannski ástæða þess að Rússar hafa komið auga á veika hlekki í Vestur-Evrópu og nýtt sér þá til fjármagnsflutninga og peningaþvættis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags
Pressan
Í gær

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár
Pressan
Fyrir 3 dögum

Zuckerberg gagnrýnir stjórn Biden harðlega – „Öskra og bölva“

Zuckerberg gagnrýnir stjórn Biden harðlega – „Öskra og bölva“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Var sakaður um hryllilegan glæp skömmu eftir að þessi mynd var tekin

Var sakaður um hryllilegan glæp skömmu eftir að þessi mynd var tekin
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þýskur nýnasisti skiptir um kyn til að freista þess að fá að afplána í kvennafangelsi

Þýskur nýnasisti skiptir um kyn til að freista þess að fá að afplána í kvennafangelsi