Sprengingin varð á sólpalli við húsið en hann er gjörónýtur. Einnig urðu skemmdir á húsinu og nærliggjandi húsum. Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við Aftonbladet að karl og kona, íbúar í húsinu, hafi verið flutt á sjúkrahús en þau hafi sloppið ótrúlega vel, aðeins skorist lítillega. Mun verr hefði getað farið því þau sváfu á neðri hæðinni.
Nágrannar segja að púðurlykt hafi verið á vettvangi eftir sprenginguna.
Sprengjusérfræðingar voru sendir til Motala í gærkvöldi frá Stokkhólmi en ekki er talið útilokað að ósprungin sprengja sé við húsið.
Talsmaður lögreglunnar vildi ekki segja hvort íbúum hússins hafi verið hótað eða eigi í útistöðum við einhvern. Hann sagði að vitni hafi gefið ákveðnar upplýsingar en ekki verði skýrt frá þeim að svo komnu máli.