Kristeligt Dagblad skýrir frá þessu og byggir á nýrri könnun sem var gerð meðal 46.000 manns í 34 Afríkuríkjum. Það var hin óháða rannsóknarstofnun Afrobarometer sem gerði könnunina. Að meðaltali sögðust 36 prósent aðspurðra helst vilja flytja til annars Afríkuríkis. 27 prósent sögðu að Evrópa væri efst á blaði hjá þeim.
Könnunin var gerð frá 2016 til 2018 en niðurstöður hennar voru birtar nýlega. Þær sýna að mikill munur er á svörum fólks eftir búsetu þess.
58 prósent þeirra, sem búa sunnan Sahara, sögðust helst vilja flytja til annars Afríkuríkis en hjá þeim sem búa norðan Sahara var hlutfallið 8 prósent.
En þótt fólk hafi hugleitt þetta þá er langur vegur frá hugsunum til framkvæmda. Af þeim sem sögðust hafa íhugað að flytja sig um set sagði tíundi hver að hann væri að undirbúa sig undir það. Þetta svarar til þriggja prósenta af íbúafjölda Afríku.