Þetta er ekki bara eitthvað sem fólk segir heldur kemur þetta fram í nýrri sænskri skýrslu. Fram kemur að með aldrinum minnki vöðvahlutfallið í líkamanum sem og magn vatns. Þetta veldur því að magn áfengis í blóðinu verður meira og varir lengur en á yngri árum.
Sven Andresson, prófessor við Karólínsku stofnunina, segir að þetta geti skýrt af hverju hættan á sjúkdómum og slysum aukist við áfengisneyslu og það þótt neyslan sé mjög lítil. Í skýrslunni kemur fram að eldra fólk sé viðkvæmara fyrir áhrifum áfengis, bæði til lengri og skemmri tíma.
Það voru IOGT-NTO, Samtök sænskra lækna, Samtök sænskra hjúkrunarfræðinga og Gautaborgarháskóli sem komu að gerð skýrslunnar.
Í umfjöllun um málið hefur Jótlandspósturinn eftir Jens Meldgaard Bruun, prófessor og yfirlækni við háskólasjúkrahúsið í Árósum að eftir því sem fólk eldist sé minna kalk í beinum þess og sumir glími við beinþynningu. Þetta í bland við áfengisneyslu auki líkurnar á að detta og verða fyrir meiðslum. Hann sagði að það væri því miður ekki til neinn kraftaverkakúr við timburmönnum og einfaldasta lausnin væri einfaldlega að drekka minna.