Af þeim sökum hefur lögreglan hvatt þá sem telja að Graumann hafi verið í nöp við þá til að hafa strax samband við lögregluna.
BBC skýrir frá þessu.
Graumann bjó í bænum Mehlingen í vesturhluta landsins. Hann lést heima hjá sér en dánarorsök er óljós og bíður lögreglan niðurstöðu krufningar. Þennan sama dag lést fyrrgreindur læknir í sprengingu í bænum Enkenbach-Alsenborn sem er ekki langt frá Mehlingen.
Lögreglan segir að læknirinn hafi látist eftir að sprengja sprakk við aðaldyr læknastofu hans. Um gildru var að ræða þar sem pakka hafði verið komið fyrir við dyrnar. Þegar læknirinn tók hann upp sprakk sprengjan.
Á sunnudaginn varð önnur sprenging í bænum Otterberg, sem er einnig skammt frá Mehlingen, og særðust mæðgur. Sprengju hafði verið komið fyrir inni í viðardrumbi sem mæðgurnar settu í arinn á heimili sínu. Lögreglan telur að Graumann hafi komið sprengjunni fyrir. Mæðgurnar slösuðust en eru ekki í lífshættu.
Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að Graumann hafði tengsl við fórnarlömbin og segir í yfirlýsingu lögreglunnar að þau „tengsl hafi ekki verið á góðum nótum“.
Á heimili Graumann fannst byssupúður og „aðrir hlutir“ sem falla undir lög og reglur um sprengiefni. Lögreglan útilokar því ekki að Graumann hafi verið búinn að útbúa fleiri sprengigildrur.