Lengi hefur verið vitað að Norður-Kóreumenn eru öflugir á þessu sviði og talið er að tölvuþrjótarnir séu undir beinni stjórn leiðtoga landsins. Samkvæmt rannsókn McAfee teygja tölvuárásir Lazarus-hópsins sig lengra aftur en talið var og eru mun umfangsmeiri. The Times skýrir frá þessu í umfjöllun um skýrslu McAfee. Þar kemur fram að hópurinn hafi að öllum líkindum staðið að „Operation Sharpshooter“ í október og nóvember á síðasta ári. Um er að ræða stóra tölvuárás sem var hugsanlega hrundið af stað 2017. Þrjótunum tókst að brjótast inn í tölvur 87 samtaka og fyrirtækja, aðallega í Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Tyrklandi, og komast yfir gögn og njósna.
Í Bretlandi voru það fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum, fjármálageiranum og fjarskiptum sem þrjótunum tókst að brjótast inn hjá. Í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Tyrklandi voru það meðal annars orkufyrirtæki og fyrirtæki sem vinna með kjarnorku og varnarmál sem voru skotmörkin. Þá sýnir skýrsla McAfee að þrjótarnir reyndu að komast nærri ríkisstjórnum. Ekki er enn ljóst hversu mikið af gögnum þeir komust yfir.
Þá leiddi rannsókn McAfee í ljós að Lazarus-hópurinn hefur tengsl við Namibíu en þar hafa minniháttar tölvuárásir verið gerðar í tilraunaskyni áður en látið hefur verið til skarar skríða af fullum þunga á Vesturlöndum.