Bretar tóku einnig sjö ára son keisarans, Alemayehu, með sér heim ásamt öðrum verðmætum sem þeir stálu í Eþíópíu. Hann varð uppáhald Viktoríu drottningar en lést aðeins 18 ára af völdum lungnabólgu. Jarðneskar leifar hans eru varðveittar í Windsor kastala og vilja Eþíópíumenn einnig fá þær heim.
The National Army safnið hefur ákveðið að birta ekki myndir af hárlufsunni því málið er svo viðkvæmt. Það eru tvær lufsur eftir af hári keisarans, þær eru á stærð við smámynt.
Safnið hefur ákveðið að verða við kröfum Eþíópíumanna um að afhenda þeim hárið og hefst afhendingarferlið á næstu dögum. Safnið hefur þó sent frá sér skýr skilaboð um að það muni ekki láta fleiri muni frá Afríku af hendi. Hárdeilurnar hafa vakið upp kröfur margra um að fá stolna muni aftur frá breskum söfnum.
Af nógu er að taka enda fóru Bretar víða um heim og tóku eitt og annað á ferðum sínum sem endaði á breskum söfnum. Í Eþíópíu þurfti að sögn 15 fíla og 200 múldýr til að bera herfangið frá Maqdala.