BBC skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn við Colorado Boulder University í Bandaríkjunum hafi rannsakað þrjá hópa fólks. Tveir hópar sváfu of lítið á virkum dögum eða fimm klukkustundir á nóttu. Annar svefnlitli hópurinn fékk að sofa lengur um helgar en hinn var látinn halda áfram að sofa of lítið. Þriðji hópurinn fékk nægan svefn eða níu klukkustundir á nóttu.
Svefnskorturinn hafði þau áhrif á báða hópana að þeir borðuðu meira á kvöldin, þyngdust og heilsufar þeirra var verra en hjá þeim sem fengu nægan svefn. Rannsóknin stóð yfir í 14 daga og á þeim tíma þyngdust þátttakendur að meðaltali um 1 kíló.
Hópurinn sem fékk aukahvíld um helgar bætti stöðu sína lítillega um helgar, borðaði til dæmis minna milli mála, en þessi bættu áhrif hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar ný vika með tilheyrandi svefnskorti hófst.
Þátttakendur voru 36 talsins á aldrinum 18 til 39 ára.
Malcoom von Schantz, prófessor, segir að þrátt fyrir að það gagnist ekki að sofa lengur um helgar til að bæta upp svefnskort vikunnar þá eigi fólk að leyfa sér að sofa lengur ef það hefur tök á.