Finn Abrahamsen, sem var lögreglumaður í 36 ár, meðal annars yfirlögregluþjónn í Osló, sagði þetta í samtali við TV2. Hann er nú á eftirlaunum en starfar jafnframt sem einkaspæjari.
Eins og fram hefur komið í fréttum sjást tveir menn á myndbandsupptökum, sem voru gerðar við vinnustað Tom Hagen, eiginmanns Anne-Elisabeth. Abrahamsen telur að hegðun mannanna, á upptökunum, sé mjög grunsamleg. Annaðhvort séu þeir að villa um fyrir lögreglunni eða vakta vinnustað Tom Hagen. Þeir virðist vita hvar myndavélarnar eru og þeir snúi einmitt við þar sem sjónsvið myndavélanna endar. Hann segist telja að mennirnir tengist málinu.
Síðasta lífsmark, sem vitað er um hjá Anne-Elisabeth, var klukkan 09.14 að morgni 31. október. Þá talaði hún í síma en lögreglan hefur ekki viljað upplýsa við hvern hún talaði eða hversu lengi samtalið varði.
Tom Hagen tilkynnti um hvarf hennar klukkan 13.30. Lögreglan fann ýmsar vísbendingar og sönnunargögn á heimili þeirra hjóna en hefur lítið látið uppi um hvað. Þá var einnig leitað í vatni við heimili þeirra hjóna og þar fundust munir.
Vitað er að Tom Hagen fann skrifleg skilaboð á heimili sínu þar sem lausnargjalds var krafist fyrir Anne-Elisabeth. 9 milljóna evra var krafist og átti að greiða þær í rafmynt. Í síðustu viku var einnig skýrt frá því að ummerki um átök hefðu verið í húsinu sem og eins og einhver hafi verið dreginn eftir gólfinu, það hefur þá væntanlega verið Anne-Elisabeth.
Abrahamsen telur að lögreglan verði að fara varlega í að stóla á þær vísbendingar og sönnunargögn sem fundust á heimil hjónanna. Það verði að hafa í huga að hugsanlega sé Tom Hagen sá sem aðgerðir mannræningjanna beinast að. Ekki sé hægt að útiloka að það sem fannst í húsinu hafi verið sett þar vísvitandi til að villa um fyrir lögreglunni. Ef svo sé þá geti það bent til að hér sé eitthvað annað á ferð en venjulegt mannrán.
Hann segir að hugsanlega eigi að ná beint til Tom Hagen. Til dæmis með því að beina grun lögreglunnar að honum. Hann segist telja að lögreglan búi yfir mun meiri upplýsingum en hún hefur látið uppi.
„Ég þekki enga hliðstæðu þessa máls. Mannræningi, sem vill fá peninga, gerir jú allt sem hann getur til að fá það sem hann er á höttunum eftir. Af þeim sökum getur hugsast að hér búi eitthvað annað að baki því tíminn hefur leitt í ljós að ekki virðist mikill áhugi á peningum.“