Þetta er ekki skáldskapur heldur það sem sést á myndum, sem voru teknar í Líbíu, af meðferð sem flóttamenn sæta þar í landi. Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 fjallaði um málið fyrir helgi og sýndi myndir og myndbandsupptökur frá flóttamannabúðum í Líbíu. Þar eru flóttamenn pyntaðir eftir að hælisumsóknum þeirra hefur verið hafnað í Evrópu.
Á einni upptökunni sést þegar bráðnu plasti er hellt yfir ungan mann á meðan skammbyssu er miðað á hann.
Lögmenn, sem sérhæfa sig í útlendingarétti og málefnum innflytjenda og flóttamanna, hafa viðað að sér efni um pyntingar og kúgun á flóttamönnum og innflytjendum.
„Þeir eru pyntaðir á meðan foreldrar þeirra geta heyrt þá öskra í gegnum símann. Þetta er til að fá foreldrana til að greiða háar fjárhæðir fyrir að fá börn sín aftur.“
Segir Giulia Tranchina í samtali við Channel 4.
„Ég hef hitt marga skjólstæðinga sem eru illa farnir andlega og þaktir örum. Unglingar, sem var haldið í 2-3 ár, og síðan sendir aftur þaðan sem þeir komu frá.“
Segir hún í þættinum.
Evrópusambandið er borið þungum sökum í þættinum og sagt vera samsekt um glæpi gegn innflytjendum því hertar innflytjendareglur geri að verkum að fólkið sé sent aftur til Líbíu í stað þess að það fái hæli í Evrópu. Núverandi stefna ESB gengur út á að þjálfa líbísku strandgæsluna og styðja fjárhagslega við hana en án þess að fylgst sé með hvað gerist í flóttamannabúðum í Líbíu segir í þættinum.
„Forgangsverkefni Evrópuríkja er að stöðva flóttamenn og innflytjendur í að komast yfir Miðjarðarhafið. Engin ríki leggja neitt af mörkum til að stöðva mannréttindabrot í Líbíu.“
Segir Matteo Debellis, hjá Amnesty International.