Platan kom út á miðnætti og um leið voru birt myndbönd á YouTube með lögum af plötunni.
Danskir fjölmiðlar hafa að vonum fjallað mikið um þetta í gær og nú í morgun enda Kim Larsen sannkölluð þjóðargersemi sem allar núlifandi kynslóðir Dana þekkja vel og líklegast kunna allir að minnsta kosti eitt lag eftir hann enda voru smellirnir margir.
Á nýju plötunni, sem heitir Sange Fra Første Sal, eru 12 ný lög. Platan varð aðgengileg á helstu efnisveitunum á miðnætti.
Eins og nafn plötunnar ber með sér þá var hún tekin upp í íbúð Larsen á fyrstu hæð. Í fréttatilkynningu frá Warner Music, sem gefur plötuna út, kemur fram að Larsen hafi staðið nær alfarið að gerð hennar. Hann samdi lög og texta og undirbjó allt fyrir upptökurnar. Hann sá um hljóðblöndun, ákvað uppröðun laga og titil plötunnar sem og myndina á albúminu. Það eina sem hann náði ekki að ljúka var að gefa plötuna út.
Hægt er að hlusta á fleiri lög af plötunni á helstu efnisveitum og á YouTube.