„Fyrsta hugsun mín að dóttir mín hefði vaknað. Þegar ég fór fram úr sá ég ókunnuga konu í dyrunum.“
Sagði Gisle í samtali við TV2. Á meðan fjölskyldan var í fastasvefni hafði par, innbrotsþjófar, komist inn í húsið. Konan stóð vakt en maðurinn leitaði að verðmætum. Þegar Gisle var að ræða við konuna kom maðurinn gangandi með borðtölvuna hans í fanginu.
„Þú getur bara lagt hana frá þér.“
Man Gisle eftir að hafa sagt við manninn.
„Ég sá að hann var með skrúfjárn í höndinni og heyrði hann segja: „Ég ætla að taka þessa tölvu með mér.““
Gisle segist hafa verið svo syfjaður og þreyttur að hann hafi nánast verið í leiðslu.
„Ég var samt fastur fyrir og reyndi að taka skrúfjárnið af honum. Ég sleppti síðan og lyfti handleggnum. Þá stakk hann mig tvisvar. Ég hrundi í gólfið, sársaukinn var svo mikill.“
Innbrotsþjófurinn sleppti tölvunni og parið hvarf á braut. Þau höfðu skartgripi, spjaldtölvu, veski og bíllykla á brott með sér.
Gisle var fluttur á sjúkrahús þar sem kom í ljós að lunga hafði fallið saman. Skrúfjárnið hafði gengið átta sentimetra inn í brjóstkassann. Hann var í lífshættu.
Réttarhöld hófust í málinu í gær en innbrotsþjófurinn er ákærður fyrir tilraun til manndráps og saksóknari hefur sagt að væntanlega verði þess krafist að maðurinn verði dæmdur til ótímabundinnar vistunar í fangelsi á grundvelli geðrannsóknar. Hann á brotaferil að baki, hefur hlotið dóma fyrir ofbeldi, innbrot og brot á fíkniefnalöggjöfinni.
Maðurinn neitar að hafa ætlað að drepa Gisle en játar að hafa stungið hann.