Enn er verið að rannsaka slysin til að reyna að komast að hvað orsakaði þau. Á meðan standa vélar sömu tegundar á jörðinni og valda Boeing og flugfélögunum, sem eiga þær, miklum vanda. Hver dagur sem flugvél stendur á jörðinni er dýr.
CNN segir að ef flugbannið vari í þrjá mánuði geti tap Boeing orðið á milli einn og fimm milljarðar dollara. CNN segir að tölurnar séu byggðar á útreikningum greinenda hjá Melius Research og Jefferies á Wall Street.
Tapið, sem Boeing stendur frammi fyrir, byggist að hluta á skaðabótakröfum frá flugfélögum vegna þess að þau geta ekki notað vélarnar sem þau hafa keypt. Norska flugfélagið Norwegian hefur til dæmis boðað að það muni krefja Boeing um skaðabætur. Þá má reikna með að sala á vélunum dragist saman vegna þessara vandræða og þá er ómældur sá álitshnekkir sem Boeing hefur orðið fyrir vegna málsins en hann getur hvílt lengi á fyrirtækinu.
Vélarnar fá ekki flugleyfi á ný fyrr en búið er að setja nýjan hugbúnað í þær, samþykkja hann og prófa í hverri einustu vél.
Boeing hefur nú þegar afgreitt um 350 MAX vélar til flugfélaga um allan heim en um 5.000 vélar hafa verið pantaðar. En þrátt fyrir þessi vandræði heldur framleiðsla vélanna áfram í Seattle en þar eru 52 vélar framleiddar í hverjum mánuði.