The Guardian og Reuters skýra frá þessu. Haft er eftir Ardern að Tarrant hafi verið með fimm skotvopn á sér þegar hann var handtekinn, þar af tvö hálfsjálfvirk. Ardern segir að hann hafi verið staðráðinn í að halda árásum sínum áfram þegar hann var handtekinn.
Tarrant var handtekinn 36 mínútum eftir að fyrsta neyðarkallið barst til lögreglunnar.
Ardern sagði ekki hvaða fyrirætlanir Tarrant hefði verið með.
Meirihluti 49 fórnarlamba hans voru karlmenn á aldrinum 30 til 40 ára að sögn heilbrigðisyfirvalda í Christchurch. Meðal særðra og látinna eru einnig börn, konur og eldra fólk.
Tarrant var færður fyrir dómara seint í gærkvöldi að íslenskum tíma og var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. apríl.