Mike Bush, lögreglustjóri, sagði að alvarlegir atburðir séu nú að eiga sér stað í borginni. Lögreglan hafi brugðist við af öllum mætti en mikið hættuástand ríki í borginni.
Sky skýrir frá þessu. Svo virðist sem árásarmaður hafi sent út í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum þegar hann fór inn í mosku með skotvopn á lofti. Moskur í borginni hafa verið hvattar til að loka og fólk hefur verið beðið að halda sig fjarri þeim.
The Guardian hefur eftir lögreglunni að á öðrum stað í borginni hafi fundist sprengja í bíl.
Ekki hefur verið gefið út hversu margir eru látnir og slasaðir en vitni sagði AP að tugum skota hafi verið hleypt af. Tugir fólks eru að jafnaði við bænahald síðdegis. Vitnið segir að skothríðin hafi varað í um 20 mínútur og að byssumaðurinn hafi gengið skipulega til verks og farið á milli herbergja í moskunni.
Skotárásir sem þessar, þar sem ráðist er á fjölda manns í einu, eru afar sjaldgæfar á Nýja-Sjálandi. Síðast gerðist það 1990 í litla þorpinu Aramoana þar sem 13 voru skotnir til bana auk árásarmannsins.