Vangaveltur hafa lengi verið uppi um hvort O‘Rourke muni bjóða sig fram og stefna á að verða forsetaframbjóðandi demókrata. KTSM, sjónvarpsstöð í Texas, segir að O‘Rourke hafi staðfest að hann ætli að bjóða sig fram og taka þátt í forvali demókrata. Hann mun að sögn tilkynna þetta formlega síðar í dag.
Í skilaboðum til sjónvarpsstöðvarinnar sagði hann að hann væri „stoltur af heimabæ sínum“, sem er El Paso í Texas, og ætli að nota bakgrunn sinn og uppeldið sem hann hlaut í Texas í kosningabaráttunni.
Kosningabarátta O‘Rourke á síðasta ári vakti mikla athygli um öll Bandaríkin. Hann safnaði háum fjárframlögum í kosningasjóð sinn en eingöngu frá einkaaðilum. Hann nýtti sér ekki stuðning stórra fyrirtækja eða lobbíista. Hann sló þess utan öll met í fjölda sjálfboðaliða sem tóku þátt í kosningabaráttunni fyrir hans hönd.
Honum var hrósað fyrir jákvæða kosningabaráttu en hann lagði sig fram um að vera jákvæður og sleppa persónulegu skítkasti en slíkt einkennir oft kosningabaráttu í Bandaríkjunum. Hann náði auk þess að heimsækja allar 254 sýslur Texas í kosningabaráttunni.
Síðan kosningarnar fóru fram í haust hefur O‘Rourke verið óspar á harða gagnrýni á Donald Trump, forseta, og fyrirætlanir hans um múrinn mikla við landamærin að Mexíkó.
O‘Rourke hefur náð miklum vinsældum á samfélagsmiðlum og notar Instagram óspart til að koma pólitískum boðskap sínum á framfæri. Hann hefur nú þegar tilkynnt að hann muni koma frá nokkrum kosningafundum í Iowa.