Bretar borða mikið af rækjum og landið er stærsti markaður fyrir pillaðar rækjur í heiminum. Stór hluti þeirra kemur frá Grænlandi. Af þessum sökum standa Grænlendingar frammi fyrir vanda. Þeir eru ekki aðilar að ESB en eru með fríverslunarsamning við ESB sem gerir þeim kleift að flytja vörur til ESB án tolla. Ef Bretar ganga úr ESB standa Grænlendingar því frammi fyrir því að tollar verða lagðir á útflutning þeirra til Bretlands.
Því telja grænlensk stjórnvöld að loka verði tveimur rækjuverksmiðjum í Grænlandi þegar Brexit tekur gildi. Sú lokun mun þá vara þar til Grænlendingar hafa náð fríverslunarsamningi við Breta. Þeir hafa unnið að því mánuðum saman að ná slíkum samningi en lítið gengur í þeim efnum þar sem Grænland er ekki í forgangi hjá breskum stjórnvöldum hvað varðar samningagerð.
Grænlenska sendinefndin í Lundúnum hefur átt í erfiðleikum að fá aðgang að breskum stjórnmálamönnum. Sendinefndin gegnir einhverskonar hlutverki sendiráðs í Lundúnum þar sem Grænlendingar eru ekki með sendiráð.
Það er því mikil óvissa framundan í grænlenskum rækjuiðnaði.