WHO segir að mislingatilfellum hafi fjölgað um helming á síðasta ári miðað við 2017. Talið er að um 136.000 manns hafi látið lífið af völdum sjúkdómsins á síðasta ári. Börn eru stór hluti hinna smituðu og látnu.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef, segir að það sé falleinkunn fyrir heimsbyggðina að í 98 ríkjum fjölgaði smittilfellum á síðasta ári.
„Þetta er ákall um að heimurinn vakni. Við eigum örugg, áhrifarík og tiltölulega ódýr bóluefni gegn þessum bráðsmitandi sjúkdómi. Bóluefni sem hefur bjargað næstum milljón mannslífum á síðustu tveimur áratugum.“
Segir Henrietta Fore hjá Unicef.
Það eru tíu ríki sem standa að baki þremur fjórðu hlutum aukningarinnar í smittilfellum segir WHO. Þeirra á meðal eru Frakkland, Úkraína, Filippseyjar og Brasilía.
Mislingar eru bráðsmitandi en auðvelt er að koma í veg fyrir þá með bólusetningum. Andstaða við bólusetningar hefur færst í aukana. Sífellt fleiri efast um ávinning bólusetninga og aðrir hafa án, nokkurra vísindalegra sannana, bent á að tengsl séu á milli bólusetninga og einhverfu.
WHO lýsti því yfir í síðasta mánuði að andstaða við bólusetningar væri á topp tíu listanum yfir mestu hætturnar sem steðja að lýðheilsu jarðarbúa.