Þetta sagði Ben Wallace, varnarmálaráðherra, á fréttamannafundi á þriðjudaginn að sögn CNN.
Cantlie var rænt ásamt bandaríska blaðamanninum James Foley þegar þeir voru að fjalla um stríðið í Sýrlandi. Foley var myrtur af liðsmönnum Íslamska ríkisins 2014. En þrátt fyrir það eru bresk stjórnvöld sannfærð um að Cantlie sé á lífi en Wallace sagði ekki á hverju það mat er byggt.
Í fyrstu kom Cantlie fram í áróðursmyndböndum íklæddur appelsínugulum fangagalla en síðar fór hann að birtast í gervi fréttamanns sem fjallaði um lífið í bæjum og borgum sem hryðjuverkasamtökin höfðu á sínu valdi. Hann lætur jákvæð orð falla um samtökin í þessum myndböndum og er talið víst að hann hafi verið neyddur til að taka þátt í gerð þeirra.
Cantlie er þaulvanur stríðsfréttamaður. Áður en hann fór til Sýrlands hafði hann verið á átakasvæðum í Írak, Afganistan, Sómalíu og Líbíu. Hann var nýkominn til Sýrlands í júlí 2012 þegar honum var rænt ásamt hollenskum ljósmyndara. Þeim var þó bjargað viku síðar. Hann sneri aftur í nóvember og var þá fljótlega rænt af Íslamska ríkinu þegar hann yfirgaf netkaffihús í Binesh ásamt James Foley.
New York Times segir að Cantlie hafi verið fluttur að minnsta kosti sex sinnum á milli staða á síðustu sex árum og sé einn af 23 vestrænum föngum í haldi Íslamska ríkisins.
Fjölskylda hans hefur margoft sent frá sér ákall um að hann verði látinn laus.
Það er stefna breskra stjórnvalda að greiða ekki lausnargjald fyrir breska ríkisborgara.