Sú efnahagsstefna sem Hugo Chavéz og síðan eftirmaður hans, Nicolás Maduro, hafa rekið hefur ýtt landinu fram af bjargbrúninni efnahagslega. Eymdin sem ríkir í landinu hefur meira að segja fengið sérstakt nafn en landsmenn kalla hana: Maduro-kúrinn.
Nær algjör skortur er á helstu nauðsynjum í landinu nema hvað þeir sem tilheyra hinni pólitísku elítu og þeir sem eiga Bandaríkjadollara geta orðið sér úti um mat. Hann er alltof dýr til að venjulegt fólk geti keypt hann. Af þeim sökum hafa milljónir landsmanna flúið land og stærsti hluti þjóðarinnar fer hungraður í rúmið. Þetta hörmulega ástand hefur ýtt undir mótmæli gegn stjórn Maduro en forsetinn hefur hvergi hvikað frá stefnu sinni og varpar sökinni á ástandinu í landinu á fjandvin landsins númer eitt, Bandaríkin.
Þegar Maduro bauð sig fram til forseta á síðasta ári fór blaðamaður New York Times til Caracas, höfuðborgar Venesúela, og annara staða í landinu til að kanna ástandið. Það sem hann upplifði var að fólk fékk ekki nóg að borða, sjúkrahús áttu nær engin lyf eða einfaldan útbúnað á borð við plástur. Niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við þrjá háskóla sýna að hver Venesúelamaður hefur lést um 11 kíló á einu ári. 6.000 manns tóku þátt í rannsókninni að sögn Reuters.
Ríkisstjórnin hefur reynt að ná tökum á ástandinu með því að hækka lágmarkslaunin, það var gert sex sinnum á síðasta ári, og með því að setja þak á verð á nauðsynjavörum. En þetta hefur ekki orðið til þess að laga ástandið, þvert á móti. Upp hefur sprottið blómlegur svartur markaður þar sem er hægt að kaupa allt frá eggjum til salernispappírs og verkjalyfja. Það þarf auðvitað ekki að nefna að þessi verslunarstarfsemi fer ekki fram í hefðbundnum verslunum.
Þær vörur sem ríkisstjórnin flytur inn og selur ódýrt hafa oft reynst vera lélegar að gæðum. Rannsókn á mjólk, sem ríkisstjórnin seldi ódýrt, leiddi í ljós að hún var að megninu til vatn.
Landsmenn eru orðnir þreyttir á ástandinu og krefjast nú afsagnar Maduro í stórum hópum. Það er mikil breyting frá því sem var fyrir aðeins einu ári því þá krafðist fólk betri aðstæðna en nú hafa mótmælin snúist gegn Maduro sem rígheldur enn í völdin og mun væntanlega gera meðan her landsins stendur að baki honum. Það er því ekki að sjá að Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og forseti þjóðþingsins, taki við völdum á næstunni þrátt fyrir að mörg lýðræðisríki hafi lýst yfir stuðningi við hann. Á móti kemur að einræðisríki og ríki þar sem lýðræði þykir ekki upp á marga fiska styðja Maduro, má þar nefna Kúbu, Kína og Rússland til sögunnar.
Verðbólgan í landinu er milljón prósent og ekkert útlit fyrir að fari að draga úr henni. Þetta er ótrúleg breyting á stöðu mála í landinu frá því sem var fyrir nokkrum árum en Venesúela á mestu olíubirgðir heims í jörðu en þegar olíuverð lækkaði fyrir nokkrum árum fór að halla undan fæti og stjórnvöldum tókst ekki að halda efnahagslífinu gangandi. Þá er mikið af gulli og öðrum málmum í jörðu í landinu, loftslagið hentar vel fyrir ferðamannaiðnað og landbúnað og áður var landið það ríkasta í Suður-Ameríku. Ekki bætir það stöðu mála að spilling er landlæg og hafa valdhafa og þeir sem eru þeim þóknanlegir makað krókinn á undanförnum árum á meðan almenningur sveltur. Landið líkist frekar landi þar sem stríð hefur geisað en landi þar sem velmegun var almenn þar til fyrir nokkrum árum.
Það var forveri Maduro, Hugo Chávez, sem lagði grunninn að þeim hörmungum sem ríkja í landinu. Þegar hann komst til valda 1998 var gríðarlegur munur á stöðu ríkra og fátækra í landinu. Hann lofaði hinum fátæku sósíalískri byltingu. Hann byggði efnahagsstefnu sína á því að olíuverð myndi haldast hátt en þegar verðið lækkaði hrundi þetta módel hans til grunna. Við því var brugðist með því að taka lán og prenta peningaseðla, það leiddi af sér verðbólgu og gerði gjaldmiðil landsins verðlausan. Til að geta greitt af lánum skar ríkisstjórnin niður innflutning til landsins sem orskaði mikinn skort á nær öllu því sem ekki er framleitt í Venesúela. Auk þess var búið að ríkisvæða stóran hluta efnahagslífsins og bætti það ekki úr skák að margra mati.