fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

Eftir 5 til 10 ár vitum við hvort við erum ein í alheiminum

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 24. febrúar 2019 20:00

Uffe Gråe Jørgensen Prófessor í stjarneðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erum við alein í alheiminum eða eru algjörlega óþekkt lífsform á einhverjum plánetum? Þetta er líklega ein af stærstu spurningunum sem leita á mannkynið og hefur gert alla tíð. En nú  er hugsanlega ekki svo langt þangað til við fáum svör við þessu. Jafnvel innan næstu fimm til tíu ára að mati Uffe Gråe Jørgensen, prófessors í stjarneðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Að minnsta kosti ef lífið hegðar sér eitthvað í líkingu við það sem það gerir á jörðinni.

„Það er ótrúleg tilhugsun að við lifum á tíma þar sem við getum í fyrsta sinn fengið svarið við svona mikilvægri spurningu. Það er frábært að við munum fá svar,“ sagði Jørgensen nýlega í samtali við videnskab.dk.

Innan fárra ára verður ný kynslóð geimsjónauka tilbúin til að leita að ummerkjum um líf á byggilegum plánetum utan sólkerfisins okkar. Með því að rannsaka gufuhvolf þeirra getum við fengið svar við spurningunni um hvort líf sé að finna utan jarðarinnar. En stóra spurningin er auðvitað hvert á að beina sjónum þessara sjónauka í leit að geimverum, einfrumungum, plöntum eða hverju því sem við teljum að geti verið að finna í hinum risastóra alheimi?

Fjarplánetur eru væntanlega tilvaldar til slíkra rannsókna en það eru plánetur sem eru á braut um stjörnur sínar utan sólkerfis okkar. Sérfræðingar eru að mestu sammála um að beina eigi leitinni að slíkum plánetum. Nú þegar vitum við um 3.800 fjarplánetur í alheiminum og þær eru örugglega miklu fleiri. Þetta eru dularfullir heimar fyrir okkur því við komumst ekki til þeirra til að rannsaka þá. En þrátt fyrir að nýju stjörnusjónaukarnir séu mjög fullkomnir þá gera þeir okkur aðeins kleift að rannsaka þær plánetur sem eru allra næst sólkerfinu okkar. En það þýðir ekki að beina sjónaukunum að hvaða plánetum sem er af þessum 3.800, fyrst þarf að að skera úr um hvort þær séu byggilegar. Ef þær eiga að vera byggilegar fyrir líf eins og við þekkjum það þá þarf hitastigið að vera passlegt, það þarf að vera fljótandi vatn þar, andrúmsloft og plánetan þarf að snúast um öxul sinn.

Jørgensen sagði að á grunni getu nýju sjónaukanna og skilyrðanna sem fjarplánetur verða að uppfylla til að líf, eins og við þekkjum það, geti þrifist þar, sé ekki útilokað að við finnum sannanir fyrir lífi á nokkrum slíkum á næsta áratug, hugsanlega tíu plánetum og jafnvel fleiri.

Risastór sjónauki
En hvert skal beina honum?

Erum við ein?

Vísindamenn eru ekki allir sammála um hvort líf sé að finna utan jarðarinnar. Sumir telja nánast öruggt að svo sé en aðrir benda á að það þurfi svo mikla röð tilviljana til að líf geti sprottið upp. Þá benda aðrir á að alheimurinn sé óendanlegur og því hljóti líf að hafa kviknað á öðrum plánetum en jörðinni, slíkur sé fjöldi pláneta og stjarna. Reynsla okkar hér á jörðinni sýnir einnig að tilveran er hörð en hér hefur verið líf þrátt fyrir ísaldir, árekstra við loftsteina og breytingar á samsetningu andrúmsloftsins. Þetta segir okkur að ef líf kviknar á annað borð þá sé erfitt að gera út af við það.

En það eru ekki öll kurl komin til grafar þótt við finnum ummerki um líf í andrúmslofti plánetu því þá á eftir að færa sterk rök fyrir að líf sé á plánetunni. En geimrannsóknir standa nú á þröskuldi nýrra tíma þar sem háþróaðir sjónaukar geta rannsakað miklu meira og séð miklu lengra út í geiminn en við höfum getað til þessa.

Risastór sjónauki

Extremely Large Telescope (ELT) (Mjög stór sjónauki) verður stærsti sjónaukinn á jörðinni en hann er háþróaður og er talinn marka tímamót í geimrannsóknum. Það er ESO, European Southern Observatory, sem er að smíða þetta tækniundur. Sjónaukinn verður, eins og nafnið gefur til kynna, stærsti sjónaukinn hér á jörðinni og stærð skiptir miklu hvað varðar sjónauka. Hvolfþak hans verður 85 metrar í þvermál og stærsti spegill hans verður stærri en knattspyrnuvöllur. Þeim mun stærri speglar, þeim mun meiri upplausn.

Annar nýr sjónauki er James Webb-sjónaukinn sem verður á braut um jörðina. Aðalverkefni hans verður að leita að innrauðu ljósi frá fyrstu stjörnunum og vetrarbrautunum sem urðu til í alheiminum. En hann mun einnig, eins og ELT, rannsaka samsetningu andrúmslofts fjarpláneta. Ef andrúmsloft þeirra inniheldur einhverja af grunnstoðum lífsins, eins og við þekkjum það, getur það verið merki um að líf sé að finna á þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þetta er besti morgunmaturinn til að tryggja þér orku allan daginn

Þetta er besti morgunmaturinn til að tryggja þér orku allan daginn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“