Þingið samþykkti fjárlög í nótt með miklum meirihluta í báðum deildum. Í þeim er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til byggingar múrsins mikla á landamærunum að Mexíkó. Af þessum sökum mun Trump lýsa yfir neyðarástandi í dag að sögn Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins.
CNN segir að Sanders hafi staðfest að Trump muni samþykkja fjárlögin og gera aðrar ráðstafanir, þar á meðal að lýsa yfir neyðarástandi, til að tryggja fjármögnun múrsins. Hún sagði að með því að lýsa yfir neyðarástandi verði hægt að binda endi á þá mannúðarkrísu og öryggisvandamál sem eru uppi við landamærin að Mexíkó.
CNN hefur eftir heimildamönnum í Hvíta húsinu að Trump muni nota neyðarástandið til að finna þá 8 milljarða dollara sem áætlað er að það kosti að reisa múr á landamærunum. Það eru rúmlega tveimur milljörðum meira en hann krafðist í samningaviðræðum um fjárlögin.
Trump vill láta reisa rúmlega 320 kílómetra langan múr á hinum rúmlega 3.000 kílómetra löngu landamærum ríkjanna.
Neyðarlög gefa forsetanum tækifæri til að fara framhjá þinginu til að finna fjármagn til verksins. En þótt hann lýsi yfir neyðarástandi er sigur ekki í höfn því margir munu reyna fá dómstóla til að úrskurða neyðarástandstilskipunina ógilda, þar á meðal demókratar.