WHO fékk 170.000 tilkynningar um mislinga 2017. Frestur til að skila inn gögnum fyrir síðasta ár er ekki liðinn en nú þegar hefur verið tilkynnt um 229.000 tilfelli. O‘Brien segir að tæplega 10 prósent tilfella séu tilkynnt svo tilfellin séu í raun í milljónatali.
Bráðabirgðatölur WHO sýna að 136.000 manns létust af völdum mislinga á síðasta ári.
„Við höfum stöðuga faraldra sem eru stórir og fara stækkandi.“
Segir O‘Brien.
WHO segir að mislingatilfellum hafi fækkað jafnt og þétt til 2016 en þá snerist þróunin við.
Katrina Kretsinger, hjá WHO, segir að mislingafaraldrar hafi brotist út í Úkraínu, Madagaskar, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og fleiri ríkjum. Á Madagaskar geisar nú faraldur og frá því í október þar til í þessari viku höfðu 66.278 mislingatilfelli greinst þar. 922 hafa látist.
CNN segir að samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum á Madagaskar hafi tæplega 50 prósent þjóðarinnar verið bólusett gegn mislingum áður en faraldurinn braust út. 95 prósent fólks þurfa að vera bólusett gegn mislingum til að hjarónæmi náist og þar með njóti þeir verndar sem ekki er hægt að bólusetja af læknisfræðilegum ástæðum.
En það er ekki bara í fátækum ríkjum sem mislingar hafa sótt í sig veðrið. WHO segir að leti og rangar upplýsingar valdi því að tilfellum hefur einnig fjölgað í ríkum löndum. Stofnunin segir að í Evrópu hafi fleiri verið bólusettir gegn mislingum á síðasta ári en nokkru sinni áður. Þrátt fyrir þetta hefur smittilfellum fjölgað mikið. Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs greindust 82.596 með mislinga í álfunni. Það eru þrisvar sinnum fleiri en 2017 og 15 sinnum fleiri en 2016. WHO segir að ein aðalástæða þessarar aukningar sé að á sumum svæðum hafi bólusetningahlutfallið farið niður fyrir 95 prósent.