Nýlega voru reglurnar hertar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en undir þau falla til dæmis Dubai og Abu Dhabi. Nú verða ferðamenn að fylla út eyðublað á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins þar sem þeir skýra frá hvaða lyf þeir ætla að taka með sér til landsins. Þetta verður að gera áður en komið er til landsins. Ef þetta er ekki gert getur það í besta falli orðið til þess að lyfin eru tekin af fólki við komuna til landsins og í versta falli getur þetta endað með fangelsisdvöl.
Í furstadæmunum eru getnaðarvarnarpillur til dæmis ekki leyfðar frekar en verkjalyf sem innihalda parasetamól. Ef lyf eru tekin með til furstadæmanna mega þau í mesta lagi svara til 30 daga notkunar.
News.com.au skýrir frá þessu en blaðið fór í gegnum mismunandi reglur í nokkrum löndum í samstarfi við tryggingafélagið comparethemarket.com.au. Það getur verið erfitt að átta sig á mismunandi reglum í hinum ýmsu löndum og því er ráðlegt að setja sig í samband við sendiráð og ræða við lækna ef maður er ekki viss um hvað má taka með til hvaða lands.
Í Bandaríkjunum eru ávanabindandi lyf á borð við þunglyndislyf og svefnlyf ólögleg ef fólk er ekki með lyfseðil eða yfirlýsingu frá lækni um að það þurfi að nota slík lyf. Auk þess þurfa lyfin að vera í upprunalegum umbúðum og ekki má taka meira með inn í landið en svarar til 90 daga notkunar.
Í Taílandi eru miklar hömlur á sölu lyfja sem innihalda kódín og betra að fara varlega í innflutning á slíkum lyfjum.
Í Hong Kong eru kvíðastillandi lyf, svefnlyf og lyf gegn risvandamálum karla ólögleg nema notandinn sé með lyfseðil eða skriflega yfirlýsingu læknis um að hann þurfi að nota lyf sem þessi.
Í Singapúr er nikótíntyggjó bannað. Það sama á við um margar tegundir kvíðastillandi lyfja, svefnlyfja og verkjalyfja. Það er þó heimilt að vera með slík lyf ef fólk er með lyfseðil. Þeir sem þurfa að nota sykursýkislyf eða lyf gegn of mikilli blóðfitu mega koma með þriggja mánaða skammt til landsins.
Í Japan er dexamphetamine, sem er notað gegn adhd, bannað og það sama á við um pseudoephedrine sem er notað í kvefmeðul og flensulyf. Þá verður að hafa lyfseðil með ef fólk vil taka lyf, sem innihalda kódín eða morfín, með inn í landið.
Í Grikklandi eru ströngustu reglur Evrópu hvað varðar kódín. Það má aðeins taka kódínlyf með til landsins ef þau eru til eigin nota og þarf þá að hafa lyfseðil með þar sem fram kemur að viðkomandi þurfi að nota lyfið og hversu mikið hann þarf að taka.