Samkvæmt nýrri rannsókn London School of Economics fjárfestu bresk fyrirtæki fyrir 8,3 milljarða punda í ESB-ríkjum frá því að ákveðið var að Bretland yfirgefi ESB og fram á þriðja ársfjórðung síðasta árs. CNBC skýrir frá þessu. Fram kemur að þetta séu peningar sem hefðu að öllu eðlilegu verið notaðir til fjárfestinga á Bretlandseyjum.
Upphæðin svarar til þess að bresk fyrirtæki hafi aukið fjárfestingar sínar um 12 prósent í ESB-ríkjum. CNBC segir að höfundar rannsóknarinnar hafi velt því upp hvort fyrirtækin hafi flutt hluta af framleiðslu sinni til ESB-ríkjanna því þau eigi von á að viðskipti við ESB verði erfið þegar Brexit hefur gengið í gegn og því verði ekki eins eftirsóknarvert og áður að stunda viðskipti við Bretland.
En það eru ekki bara breskar fjárfestingar sem Bretar missa af því rannsóknin leiddi einnig í ljós að fyrirtæki í öðrum ESB-ríkjum eru ekki mjög áköf til að fjárfesta í Bretlandi. Fjárfestingar þeirra hafa dregist saman um 11 prósent eftir Brexit-atkvæðagreiðsluna.
Brexit verður þann 29. mars næstkomandi.