Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt að ákæra Donald Trump 45. forseta Bandaríkjanna. Er hann sá þriðji til að verða ákærður með slíkum hætti í embættinu, sá fyrsti var Andrew Johnson, þriðji forseti Bandaríkjanna árið 1868 og Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna árið 1998, en þær ákærur féllu niður þar sem þær fengust ekki samþykktar í öldungadeildinni.
Meirihluti fulltrúadeildarinnar samþykkti að Trump hefði misbeitt valdi sínu með 230 atkvæðum gegn 197 og var það að mestu eftir flokkslínum þó svo þrír demókratar hefðu setið hjá, en demókratar eru með meirihluta í fulltrúadeildinni.
Einnig var samþykkt að Trump hefði hindrað fulltrúadeildina er hún reyndi að afla upplýsinga um málið, með 229 atkvæðum gegn 198.
Nú mun málið fara til öldungadeildar Bandaríkjaþings sem einnig þarf að samþykkja ákæruna ef hún á að ganga eftir. Það gæti reynst erfiðara þar sem repúblikanar fara með meirihlutann þar á bæ.