En þetta nýja frjálsræði mun þó ekki ná til heimamanna heldur aðeins til ferðamanna. Nú ætla yfirvöld að stíga það stóra skref að leyfa erlendum körlum og konum að sofa saman á hótelum. Fólk mun ekki þurfa að sanna áður að það sé í sömu fjölskyldu en sú krafa hefur verið gerð fram að þessu.
Innlendum og erlendum konum verður einnig heimilað að leigja sér hótelherbergi einar. Þetta mun bæta möguleika kvenna til að ferðast einar og fyrir ógifta útlendinga að sofa saman í konungsríkinu en þar er að sjálfsögðu bannað að stunda kynlíf fyrir hjónaband.
Arabíska dagblaðið Okaz skýrði fyrst frá þessu og staðfestu sádi-arabísk ferðamálayfirvöld fréttina síðan. Allir sádi-arabískir ríkisborgarar verða að sýna fram á að þeir séu í hjónabandi til að mega sofa saman á hótelum en þessi krafa mun ekki ná til útlendinga segja yfirvöld. Einnig segja þau að sádi-arabískar konur megi gista einar á hótelum en þær verði að sýna skilríki þegar þær leigja herbergi.
Allt er þetta liður í áætlunum stjórnvalda um að fjölga ferðamönnum í landinu til að auka fjölbreytnina í efnahag landsins. Vonast er til að hægt verði að fjölga ferðamönnum, sem heimsækja landið, í 100 milljónir á ári fyrir árið 2030.
Nýlega var tilkynnt að erlendar konur þurfi ekki að klæðast eins og heimakonur sem klæðast yfirleitt síðum svörtum kuflum og hylja andlit sitt. Erlendar konur þurfa „aðeins“ að „klæða sig sómasamlega“ segja yfirvöld án þess að skilgreina nánar hvað er sómasamlegt í þessum efnum. Áfengi verður áfram bannað í landinu.