„Þetta gerðist á þriðjudaginn en ég gat ekki hringt fyrr en í dag.“
Vopnaðir lögreglumenn fóru að heimili mannsins í Landås í Bergen en þar bjó hann ásamt móður sinni. Á svölum íbúðarinnar fann lögreglan lík móðurinnar, pakkað inn í plast. Maðurinn var handtekinn og viðurkenndi að hafa myrt móður sína fjórum dögum áður.
Í ruslageymslunni fannst exi sem hann hafði keypt á þriðjudeginum og notaði til að myrða móður sína. Hann lamdi hana 11 sinnum aftan frá með exinni þar sem hún sat við eldhúsborðið og snæddi.
Réttarhöld í málinu hófust á mánudaginn í Bergen. Maðurinn játaði sök og óskaði eftir að vera dæmdur til vistunar á geðdeild því hann hafi verið geðveikur þegar hann framdi morðið. Þremur vikum fyrir það var hann útskrifaður af Kronstad geðdeildinni í Bergen og var útskriftin gegn vilja hans að sögn verjanda hans. Hann grátbað um að vera ekki útskrifaður og sagðist óttast að hann myndi skaða aðra og móður sína.
Fylkislæknirinn í Vestland, Helga Arianson, komst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið forsvaranlegt að útskrifa manninn af geðdeild þremur vikum fyrir morðið. Tekið hafi verið tillit til sjálfsvígshættu og hættunnar á að hann myndi skaða aðra.