Á síðasta ári stakk þessi dökka fortíð höfðinu upp á nýjan leik. Það var þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna féllst á útþynnta útgáfu af tilskipun Donald Trump, forseta, um bann við komum fólks frá múslímaríkjum til Bandaríkjanna. Í niðurstöðu sinni fordæmdi dómstóllinn eigin ákvörðun frá 1944 á tilskipun Roosevelt um flutning japönsku Bandaríkjamannanna í fangabúðir í kjölfar árásarinnar á Perluhöfn.
„Að neyða bandaríska ríkisborgara til að flytja í fangabúðir eingöngu vegna kynþáttar þeirra er hlutlægt séð ólöglegt og ekki innan valdsviðs forsetans.“
Skrifaði John Roberts, Hæstaréttardómari, í dómsorði.
Fjórir af níu dómurum réttarins greiddu atkvæði á móti niðurstöðunni. Einn þeirra, Sonia Sotomayor, sagði í áliti sínu að það væri varasamt að Hæstiréttur skipti vafasamri niðurstöðu út með annarri vafasamri. Hún sagði að með því að samþykkja í blindni stefnu, sem mismunar fólki, undir yfirskyni þjóðaröryggis noti hæstiréttur sömu hættulegu rök og áður og vísaði þar í dóminn frá 1944. Tæplega 120.000 Bandaríkjamenn af japönskum ættum, aðallega frá vesturströndinni, voru sendir í fangabúðir. Þær voru staðsettar víða um land, til dæmis í Colorado, Arizona, Wyoming, Utah og Arkansas. Kanadamenn fylgdu fljótlega í fótspor Bandaríkjamanna og fluttu 21.000 Kanadamenn af japönskum ættum í fangabúðir og það sama var gert í Mexíkó.
Fangabúðunum var lokað að stríði loknu, þeim síðustu í árslok 1945. Margir fanganna misstu allt sitt á meðan þeir voru í fangabúðunum því eigur þeirra voru seldar á meðan.