Alríkislögreglan FBI fer nú með rannsókn málsins. Einu vitnin í því eru lögreglumenn frá embætti lögreglustjórans í Nye sýslu og öryggissveitir hersins sem reyndu að stöðva för mannsins þegar hann kom akandi að eftirlitsstöð. Yfirvöld hafa ekki veitt neinar upplýsingar um hver maðurinn er eða af hverju hann reyndi að komast inn á þetta vel vaktaða svæði, sem nefnist Nevada National Security Site, með eitthvað sívalningslaga. Því er sú spurning áleitin hjá mörgum hvort hér hafi hryðjuverkaárás farið út um þúfur?
Á þessu svæði gerði herinn margar tilraunir með kjarnorkusprengjur, sú síðasta var gerð 2012. Þar er nú tilraunastöð flughersins.
Maðurinn kom akandi að hinum afgirta og aflokað herbæ Mercury á sjötta tímanum síðdegis á mánudaginn. Honum var gefið merki um að stöðva við varðstöð. Hann sinnti því ekki og ók framhjá varðstöðinni og hélt för sinni áfram. Eftir að lögreglan hafði veitt honum eftir för í 11 kílómetra stöðvaði hann og steig út úr bílnum og gekk í átt að lögreglubílnum. Hann hélt á sívalningslaga hlut að sögn lögreglunnar. Lögreglumenn skutu manninn til bana. Því hefur verið velt upp hvort hann hafi verið með vopn í höndum eða rörasprengju en yfirvöld hafa ekki viljað segja neitt um það frekar en annað sem tengist þessu dularfulla máli.