Tveimur dögum síðar, eftir að hafa eytt mörgum klukkustundum í yfirheyrsluherbergi, gafst Huwe Burton upp undan miklum þrýstingi lögreglumanna, sem höfðu ekki leyft honum að sofa, og sagði þá hafa rétt fyrir sér um að hann hefði myrt móður sína eftir að hafa rifist við hana. Hann sagðist hafa verið undir áhrifum krakks. Hann var samstundis ákærður fyrir morðið.
Burton dró játningu sína strax til baka og sönnunargögn frá morðvettvanginum pössuðu ekki við það sem hann sagði um morðið. En samt sem áður trúði kviðdómurinn að hann hefði myrt móður sína og hann var fundinn sekur um morðið. Næstu 19 árum eyddi hann í fangelsi að sögn New York Times. Hann var látinn laus til reynslu 2009.
Allar götur síðan hann var sakfelldur hefur hann reynt að fá dómnum hnekkt og hreinsa mannorð sitt. Fyrir tveimur árum tóku Innocence Projeckt, sem berst fyrir að saklaust fólk, sem hefur hlotið dóm, fái nafn sitt hreinsað, og saksóknari í Bronx mál hans upp.
Á fimmtudaginn var síðan kveðinn upp dómur í málinu og var Huwe Burton sýknaður. Í dómsorði segir dómarinn að Burton hafi verið beittur þrýstingi af lögreglunni til að játa ranglega á sig sök. Auk þess voru lögð fram gögn fyrir dómi sem bendla allt annan mann við morðið.
New York Times hefur eftir Burton að þetta hafi verið löng barátta og hann sé þakklátur fyrir að nú sé niðurstaða fengin.
„Ég stend hérna á vegum 16 ára pilts sem hafði engan til að vernda sig og þeir fullorðnu gerðu ekkert til að vernda hann.“
Sagði hann í dómssal að sögn New York Times.