Í fréttatilkynningu frá norsku lögreglunni nú í morgun kemur fram að kafarar hafi nú lokið störfum í Langvannet sem hús Anne-Elisabeth og Tom Hagen stendur við. Anne-Elisabeth var rænt af heimilinu þann 31. október síðastliðinn og hefur ekkert til hennar spurst síðan en lausnargjalds upp á 9 milljónir evra hefur verið krafist fyrir lausn hennar. Í fréttatilkynningunni segir að ákveðnir hlutir hafi fundist við leit í vatninu.
Lögreglan segir að nú verði að rannsaka þessa hluti til að skera úr um hvort þeir tengjast hvarfi Anne-Eliasbeth. Lögreglan segir að vegna rannsóknarhagsmuna geti hún ekki komið með nákvæmar upplýsingar um ýmislegt er varðar rannsóknina.
Nú hafa lögreglunni borist tæplega 1.400 ábendingar vegna málsins.