Þetta segir tölvufyrirtækið SixGill að sögn Variety. Í skýrslu frá SixGill segir að leikurinn hafi dregið að sér athygli tölvuþrjóta vegna uppbyggingar hans og vinsælda en það hafi orskað blómstrandi efnahagslíf í kringum leikinn. Samhliða vaxandi vinsældum leiksins má búast við að svikastarfsemi í tengslum við hann aukist segir í skýrslunni.
Epic Games, sem stendur að baki Fortnite, segir að fyrirtækið berjist stöðugt gegn svikahröppum og vari notendur sína við. Málið sé tekið mjög alvarlega.
Peningaþvætti fer yfirleitt þannig fram að afbrotamaður stofnar nýjan ókeypis Fortniteaðgang. Hann notar síðan eitt eða fleiri stolin greiðslukort til að kaupa gjaldmiðil leiksins, V-Bucks. Fyrir gjaldmiðilinn er hægt að kaupa eitt og annað sem gagnast í leiknum, til dæmis svokölluð skins en það eru búningar eða dragtir fyrir persónurnar í leiknum. Þegar búið er að kaupa fullt af skins er aðgangurinn, með öllum þessum skins og fleiru, settur til sölu á Ebay. Verðið er aðeins smá brot af virði hans. Þetta stökkva margir á og afbrotamennirnir eru sáttir við sitt og hafa um leið hvítþvegið peningana sem þeir fengu út á stolnu greiðslukortin.