Breskir fjölmiðlar skýra frá þessu og hafa eftir talsmanni lögreglunnar að talið sé að um mannabein sé að ræða og að verið sé að rannsaka málið.
Engin húð eða annað var á beininu og það virðist ekki vera af nýlátinni manneskju. Lögreglan segist vinna að rannsókninni í samvinnu við Primark og verið sé að ræða við framleiðendur sokkanna til að afla nánari upplýsinga.
Ekki er hægt að segja til um aldur eða kyn þess sem beinið er af nema gera frekari rannsóknir.
Talsmaður Primark sagði að verslunin taki málið mjög alvarlega og sé að rannsaka það. Rætt hafi verið við framleiðendur og ekkert bendi til að beinið hafi verið sett í sokkinn í verksmiðjunni. Því sé líklegt að því hafi verið komið fyrir í honum síðar en af hverju sé ekki hægt að segja til um.