Eins og DV skýrði frá í gær myrti sænskur karlmaður tvö börn sín, drengi, í Sala á miðvikudagskvöldið og tók síðan eigið líf. Hann skaut syni sína til bana og notaði byssuna síðan til að taka eigið líf. Hann skýrði frá morðunum í beinni útsendingu á Facebook og tók síðan eigið líf. Lögreglunni var strax tilkynnt um þetta af fólki sem sá útsendinguna á Facebook en það var um seinan, feðgarnir voru látnir er að var komið. Maðurinn var þekktur íþróttamaður í Svíþjóð og hafði keppt á meðal þeirra bestu í sinni grein. Hann var 45 ára.
Expressen hefur eftir nokkrum vinum hans að honum hljóti að hafa liðið illa að undanförnum. Einn vinur hans sagði að hann hafi leitað mikið eftir samskiptum við fólk undanfarið og að nýverið hafi hann fengið slæm tíðindi. Annar vinur sagði að mikil sorg hafi einkennt líf mannsins í gegnum tíðina.
Vinir hans og kunningjar úr íþróttum minnast hans sem glaðs og félagslynds manns.
Lögreglan hefur staðfest að hún hafi upptöku af Facebookútsendingu mannsins undir höndum og hafi skýra mynd af atburðarásinni þetta kvöld. Expressen segist hafa heimildir fyrir að í útsendingunni hafi maðurinn sagt að hann væri búinn að skjóta „strákana“ sína og að hann viti ekki hvort Facebook muni stöðva útsendinguna. Hann sagði jafnframt að hann hafi hugleitt þetta lengi og hafi greitt alla reikninga.
Útsendingin hófst um klukkan 21 og var aðgengileg á Facebook í 10 klukkustundir áður en samfélagsmiðillinn tók hana úr sýningu. Þetta hefur vakið umræður í Svíþjóð um viðbrögð Facebook við atburðum sem þessu. Bent hefur verið á að í útsendingunni hafi maðurinn komið boðskap sínum á framfæri og jafnvel fengið athygli sem hann var að leita að eftir að hafa myrt syni sína. Þá vilja margir meina að ekki eigi að ræða um atburð sem þennan sem fjölskylduharmleik heldur sem morð enda hafi tvö varnarlaus börn verið myrt með köldu blóði.